top of page
einar_hakonar_edited_edited.jpg

Um Einar Hákonarson

Æviágrip

Einar Hákonarson var einungis 15 ára gamall þegar honum var veitt innganga í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Eftir námið á Íslandi tók við framhaldsnám í Valand-Listaháskólanum í Gautaborg og þar lagði Einar stund á málun og svartlist. Í kjölfarið hlaut Einar fjölda alþjóðlegra verðlauna fyrir svartlist sína og Myndlistaverðlaun Norðurlanda fyrir málverk sín.

Á Svíþjóðarárum Einars voru umrótatímar í alþjóðlegri myndlist sem og samfélagslega. Einar hélt sína fyrstu málverkasýningu á Íslandi 1968. Þetta var tímamótasýning á Íslandi þar sem manneskjuform og tjástefna verka hans voru á skjön við abstraktlist sem hafði ráðið ríkjum á Íslandi í um 20 ára skeið. Sýningin markaði kaflaskil með áhrifum popplistar, tjástefnu og endurkomu manneskjunnar í íslenska málverkið. Einar hefur ávallt haldið sínu striki þótt losnað hafi um form og tjáningu hin síðari ár. Einar hefur haldið yfir 40 einkasýningar á ferlinum og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslenskri og erlendri grund.

Einar hefur aðallega fengist við málun og grafík en hefur einnig unnið með skúlptúr, steint gler, emaléringu og mósaík.
Manneskjan í umhverfi sínu hefur verið sem rauður þráður í gegnum feril hans. Hann sækir oft innblástur í íslenska náttúru og íslenskt samfélag. Meðal annarra yrkisefna má nefna borgarsamfélagið, Íslendingasögurnar og trúarmyndir en hann hefur unnið talsvert að kirkjulist. Oft má finna samtímasögur í verkum hans, t.d. Gunnlaugssundið við Vestmannaeyjar árið 1984, en einnig má í verkum hans finna gagnrýni á íslenskt samfélag t.a.m. byggðarstefnu og sjávarútvegsmál, ofurkapítalisma og umhverfismál.
Einar er einn helsti portréttmálari okkar Íslendinga og hann hefur málað marga af helstu framámönnum og ráðamönnum þjóðarinnar.
Árið 1974 stýrði Einar stórsýningunni um 1100 ára afmælissýningu Íslandsbyggðar fyrir Íslenska Ríkið.

Einar var kennari við Myndlista- og Handíðaskólann um nokkurra ára skeið og skólastjóri hans árin 1978 – 1982. Á þeim árum stofnaði hann grafíkdeild og myndhöggvaradeild við skólann. Áður hafði Einar verið meðstofnandi Grafíkfélagsins (Íslensk Grafík) og fyrsti formaður þess.

Einar var um tíma listrænn stjórnandi Kjarvalsstaða og Ásmundarsafns. Þar kom hann að fjölda sýninga og alþjóðastarfi. Í safnatíð Einars var þátttöku Íslendinga í Feneyjartvíæringnum komið á fót.
Einar hefur komið að ýmsum menningarstörfum, m.a sem stjórnarmaður í Norrænu menningarsamstarfi kennt við Hässelby í Svíþjóð.

Árið 1996 byggði Einar sjálfur og rak fyrstu einkareknu menningarmiðstöð á Íslandi, Listaskálann í Hveragerði. Það var 1000m2 menningarmiðstöð með áherslu á málverk og þar voru haldnar tugir málverkasýninga auk fjöldan allan af tónlistar-, leiklistar- og bókmenntaviðburðum. Í dag er Listaskálinn Listasafn Árnesinga.

Síðustu árin hefur Einar eingöngu helgað sig listsköpun. Hann býr og starfar á Hólmavík ásamt eiginkonu sinni, Sólveigu Hjálmarsdóttur.

Um Einar: Bio
Um Einar: Pro Gallery
bottom of page